Arkímedes

Heúrēka!

Þreyttur á XP…hvað stendur til boða?

| Athugasemdir

Fyrir skömmu var ákveðið að uppfæra eða breyta um stýrikerfi í eldri fartölvu með Windows XP stýrikerfið. Ekki var valið að setja upp Windows 7 - vegna kostnaðar – og þar sem engin skjárekill var heldur til fyrir innbyggðu skjástýringu í þessari fartölvu, og ansi ólíklegt hann yrði til í náinni framtíð. Sumir hafa getað bjargað sér og notað skjárekla ætlaðir fyrir Vista stýrikerfið í Windows 7 en jafnvel þá geta komið upp vandræði.

Nokkur Linux stýrikerfi, (11.04 – ‘Natty’ kjarni), voru því skoðuð og uppsett á vélinni, þar á meðal; Ubuntu, Xubuntu, Linux Mint. Aðrir möguleikar voru kannaðir, t.d. ReactOS en það er t.d. ekki komið nógu langt í þróunarferlinu.  Usb kubbur sem búið var að setja stýrikerfin á með Unetbootin  var tengdur við fartölvu og gekk uppsetning ansi vel.  Reyndar komu upp tvö lítilsháttar vandamál. Að koma þráðlausu netkortinu í samband á umræddri Acer vél, en þetta virðist líka vera vandamál á einhverjum Lenovo fartölvum,   þarf nokkur auka handtök.

Þá var einnig ekki til Linux rekill fyrir netkort og þurfti því að nota Windows rekil, með því að setja upp ákveðna viðbót í Linux til að það væri unnt. Með góðri leit á google.com fundust flest svör við þessu og leiðbeiningar – á ensku. Oft eru svör að finna á hjálparvefum Ubuntu og annarra stýrikerfa, en margir einstaklingar hafa bloggað um svörin og oft mun einfaldara stundum að fara eftir þeim út af því miður, mjög svo tæknilegri, langri, þurri, framsetningu af hjálparvefjum stýrikerfa – ef þær finnast á annað borð.

Þá kom einnig upp vandamál í þessu tilviki, með flashplayer uppsetningu í Firefox rápara.  Til að stilla svona atriði fyrir leikmenn sem hafa eingöngu reynslu af Windows stýrikerfi þá getur þurft einhverja þrautseigju, gott netsamband og google. Þarna er oft um að ræða aðeins meira en að smella á skrá og velja um ‘install’. Það getur þurft að kafa dýpra, og breyta skrám í tilteknum möppum. En eftir að þessi vandamál voru að baki – ekki skal undra ef tekur hálfan dag eða meira með hléum – þá virkuðu stýrikerfin afar vel miða við XP.  Það kemur kannski ekki á óvart að einhver fyrirtæki taka að sér að setja upp þessi stýrikerfi fyrir notendur, fyrir ca. 3000-4000 kr.

Þá var eins og að vafra um á netinu væri fljótvirkara í Linux en í XP kerfinu.  Linux Mint á víst að vera hér um bil í 4ja sæti yfir vinsælustu stýrikerfi í heiminum, en hér réðu fagurfræðileg sjónarmið að það varð ekki fyrir valinu.  Á umræddri vél var valið að setja upp Xubuntu, samhliða XP.  Við ræsingu kemur upp valmynd sem Linux kerfið setur upp og þar er hægt að velja um að keyra XP stýrikerfið eða eitthvert annað Linux afbrigði. Þetta fyrirkomulag hentar vel ef keyra þarf gömul forrit í Windows.