Arkímedes

Heúrēka!

hdd 140-140

Hækkandi verð – færri Gígabæt fyrir krónuna

| Athugasemdir

Nú virðist sem framboð 3.5″ Sata 2 (gagnaflutningshraði, 300 MB/s) diskna í borðtölvum er farið að minnka í verslunum og þess í stað farið að bjóða upp á Sata 3 diska (600 MB/s). Þar sem þeir eru oft samhæfir við móðurborð eldri borðvéla þá er ekkert slæmt um það að segja. Hægt verður að stilla þá auðveldlega til að nota með eldri tölvum ef það gerist ekki sjálfkrafa. Það er nú svo að margir eru ennþá með eldri móðurborð í sínum tölvum og hafa ekki rokið út og talið sig þurfa, eða geta keypt móðurborð sem nýtir sér aukinn flutningshraða Sata 3 tækninnar.

Þá er gott að kanna nánar hvað viðkomandi diskur getur lesið/skrifað gögn í reynd í MB/s.  Einhverjir, ef ekki flestir diskar af Sata 3 gerð eru ennþá undir því hámarki sem Sata 2 tengi býður upp á bæði í lestri og skrif, þ.e. 300 MB/s, þannig að í þeim tilfellum ber ekki að líta á hvort hann notar.  Þannig séð er hægt að líkja þessu við pípu og vatnsrennsli. Pípuna má stækka, en það er til lítils ef vatnsrennslið eykst ekki. Sem stendur er ‘rennslið’ (raunverulegur gagnaflutningshraði) - oftast vel undir því hámarki sem Sata II (300 MB/s) tengið (pípan) býður upp á.

En nú, einmitt um svipað leyti og þessir diskar eru að verða vinsælli hjá seljendum og mun færri Sata 2 diskar til sölu, þá virðist verð m.v. gagnamagn hafa hækkað töluvert.  En þá vilja menn einnig kenna mannskæðum flóðum í Tælandi nýverið – þar sem mikil framleiðsla á hörðum diskum fer fram.

Sem dæmi, þá var ekki óalgengt fyrir 1-2 mánuðum að hægt væri að kaupa 1 TB Sata 2 disk fyrir 10 þús. kr. Skv. uppflettingu á vaktin.is virðist nú þurfa tæplega 16 þús. krónur fyrir sama magn, hvort sem er Sata 2/Sata 3 - og kæmi ekki á óvart ef eldri diskar (Sata 2) hafi jafnframt hækkað í verði, þar sem þeir fást ennþá hér.  Lausleg skoðun á ástandi erlendis leiddi í ljós að verð milli þessara nýju og eldri diska eru svipuð.  Þá virðist ennþá vera til gríðarlegt framboð af diskum með eldri tækninni erlendis.

Komið hefur fram í umræðu á netinu að í Tælandi fer aðallega fram mikil framleiðsla á íhlutum tengdum fartölvudiskum en ekki öðrum – þó hefur hækkun orðið á öllum tegundum. Seljendur bera fyrir sig gagnvart seljendum og minna þá á að ekki sé sanngjarnt að ræða um verð í ljósi hörmunga í landinu – ég geri alls ekki lítið úr þeim. En sökum svona raka verður umræða um þessi mál stutt, þar sem flestir neytendur finna til með öðrum sem eiga við ramman reip að draga. Hvort nokkuð af hækkuninni skil sér til bágstaddra hefur ekki komið í ljós.

Hins vegar mættu hinir stóru harðdiska framleiðendur taka sig til sjálfir og sýna í verki samúð með því að láta beina prósentu af sölu renna til fórnarlamba og uppbyggingar frekar en að láta neytandann treysta á að framleiðendur geri það að lokum en geri ekki einungis það sem þeir telja arðbært fyrir sig sjálfa og komi verksmiðjum sínum í gang hið fyrsta án þess að króna renni til almennings þar á bæ. Greinarhöfundi þykir þessi ofur mikla hækkun dularfull – og telji mætti að framleiðendur hefðu átt að leggja til hliðar fjármagn einmitt til að mæta svona óvæntum atburðum. Til að gefa betri mynd af málum er hér birt verðkönnun af vefsíðu vaktin.is frá júní, 2011. Fróðlegt er að bera hana saman við mynd og sjá hvernig verðin hafa hækkað í mörgum tilfellum.

Dæmi um verðbreytingar. Verð tekin af vefsíðum vaktin.is, Júní og Nóvember 2011.

Stærð (TB) Lægstu verð – Júní 2011 Lægstu verð – 6. Nóvember 2011 Athugasemdir
3 38.900 kr. 48.950 kr. 3.5″ (Sata 2/3)
2 12.990 kr. 23.900 kr. 3.5″ (Sata 2/3)
1,5 11.890 kr. 20.900 kr. 3.5″ (Sata 2/3)
1 7.990 kr. 18.900 kr. 3.5″ (Sata 2/3)
0,75 7.990 kr. 17.500 kr. 3.5″ (Sata 2/3)
0,64 6.990 kr. 17.900 kr. 2.5″ Sata 2
0,5 5.490 kr. 12.500 kr. 2.5″ Sata 2 – kisildalur.is

Sjáum hvað þessi hækkun þýðir myndrænt:

Berum nú saman verð eftir stærðum og tveggja tímabila.